Dómafordæmi varðandi bótarétt einstaklinga með eigin atvinnurekstur

Hæstiréttur staðfesti í vetur dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli umbjóðanda OPUS lögmanna á hendur vátryggingafélagi vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. Maðurinn, sem er menntaður hárgreiðslumeistari og rak einkafyrirtæki í faginu, var vegna afleiðinga slyssins metinn til 15% varanlegrar örorku og krafðist hann skaðabóta af hendi tryggingafélagsins.

Fallist var á varakröfu mannsins um að miða bætur við meðaltekjur iðnaðarmanna á almanaksárinu fyrir slysdag og var sú krafa byggð á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Aðalkrafa mannsins var sú að miðað yrði við meðaltal heildartekna hans þrjú almanaksár fyrir slysdag í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Félli þar undir bæði mánaðarlegt endurgjald sem maðurinn reiknaði sér, auk hagnaðar af atvinnustarfsemi sem hann greiddi sér í lok hvers ár í samræmi við afkomu rekstrarins. Hafði tryggingafélagið hins vegar krafist þess að einungis yrði miðað við að reiknað endurgjald mannsins og að alfarið yrði litið framhjá hagnaði af rekstri hans.

Hæstiréttur féllst þannig á varakröfu umbjóðanda OPUS lögmanna og dæmdi vátryggingafélagið til að greiða honum skaðabætur í samræmi við hana. Dómur þessi hefur fordæmisgildi þegar kemur að bótaviðmiði fyrir einstaklinga sem stunda eigin atvinnurekstur og hafa af honum tekjur í formi endurgjalds og hagnaðar af starfseminni.

Nánari upplýsingar veitir Eva Hrönn Jónsdóttir hdl. í síma 415 2200 eða á eva@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf