Sagan

OPUS lögmenn hófu starfsemi sína 1. desember 2006. Stofnendur OPUS lögmanna og eigendur framan af voru þeir Erlendur Þór Gunnarsson, Grímur Sigurðarson og Oddgeir Einarsson. Árið 2010 bættist Borgar Þór Einarsson í eigendahópinn en hann hvarf svo til annarra starfa árið 2014 og Grímur ári síðar.  Flosi Hrafn Sigurðsson bættist svo í eigendahópinn árið 2014 og Bjarni Þór Sigurbjörnsson árið 2018.

Með þeim starfa þrír löglærðir fulltrúar, sem allir hafa málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi, auk skrifstofustjóra og kerfisstjóra.

Lögfræðiþjónusta OPUS lögmanna við einstaklinga byggir á mikilli reynslu og kunnáttu lögmanna stofunnar í málum vegna umferðar- og vinnuslysa, sakamála og hjúskapar-, erfða- og barnaréttarmála. Þá hafa OPUS lögmenn á að skipa lögmönnum með sérþekkingu á öllum sviðum fasteignamála. OPUS lögmenn hafa frá upphafi lagt áherslu á lögfræðiþjónustu fyrir erlenda ríkisborgara og Íslendinga af erlendum uppruna sem búsettir eru hér á landi. Til marks um það eru upplýsingar um starfsemi stofunnar aðgengilegar á fjórtán erlendum tungumálum á heimasíðu hennar á www.opus.is.

Segja má að þjónusta við einstaklinga hafi framan af verið hryggjarstykkið í rekstri stofunnar og hvílir starfsemin enn á þeim sterka grunni sem þá var lagður. Áhersla er lögð á persónulega og áreiðanlega þjónustu við viðskiptavini. Þess má geta að OPUS lögmenn buðu fyrstir íslenskra lögmanna uppá sólarhringsþjónustu við viðskiptavini sína. Í kjölfar bankakreppunnar og niðursveiflu í íslensku efnahagslífi hafa OPUS lögmenn sinnt þjónustu vegna greiðsluerfiðleika einstaklinga sem felst bæði í því að semja við einstaka kröfuhafa og að annast opinbera greiðsluaðlögun.

Á síðustu misserum hafa verkefni fyrir fyrirtæki orðið veigameiri þáttur í rekstri OPUS lögmanna. Fjármála- og félagaréttur skipa þar stærstan sess en OPUS lögmenn hafa lagt sérstaka áherslu á að styrkja þá þætti í rekstri stofunnar. OPUS lögmenn gæta hagsmuna bæði erlendra og innlendra fyrirtækja, stórra sem smárra á þessu sviði. Sérfræðingar OPUS lögmanna hafa mikla reynslu af störfum í bankarétti, verðbréfamarkaðs- og kauphallarrétti og almennum félagarétti. OPUS lögmenn veita viðskiptavinum sínum þannig fyrsta flokks lögfræðiráðgjöf varðandi löggjöf um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, verðbréfaviðskipti, lánasamninga og bankastarfsemi, kauphallar- og félagarétt og gjaldeyrismál.