Sérstakur skattur á minni fyrirtæki

Túlkun á svokallaðri 50/20% reglu þegar kemur að skattlagningu arðs í litlum fyrirtækjum hefur verið mjög óljós og álitaefnin sem upp hafa komið fjölmörg.  Það sem er ósanngjarnt við þessa sérstöku skattlagningu á arði er að hún bitnar einna helst á einyrkjum og minni fjölskyldufyrirtækjum. Enda á reglan ekki við um hluthafa sem fá arðgreiðslur frá fyrirtæki sem þeir starfa ekki hjá, né starfandi hluthafa sem eiga minni hlut en 20% í félaginu. Reglunni er því beint gegn smærri fyrirtækjum með færri hluthöfum. Stærri fyrirtæki og hluthafar þeirra, sem eru þó jafnvel í beinni samkeppni við hin smærri, eru hins vegar laus við þessar kvaðir. Til að skýra betur þennan mismun og ójafnræði í skattalagningunni skal tiltaka tvö dæmi. 
  
Í fyrra dæminu er um að ræða nýsköpunarfyrirtæki í eigu fjögurra einstaklinga í jöfnum hlutföllum sem rekið er í formi einkahlutafélags. Hluthafar starfa allir hjá félaginu. Ofangreind regla á við um þrjá af fjórum og til glöggvunar er skattlagning í grófum dráttum á þann hátt að félagið greiðir 20% tekjuskatt af hagnaði en leyfist ekki að nota arðgreiðslu sem frádrátt á móti tekum þó að hluti arðsins sé í raun skattlagður eins og laun fremur fjármagnstekjur. Allir starfandi hluthafar hafa áður greitt tekjuskatt, 37-46%, af reiknuðum launum skv. viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra, þ.e.a.s. "markaðslaunum". Hagnaði er úthlutað sem arði og helmingur er skattlagður eins og venjulegar fjármagnstekjur, 20%, en hinn helmingurinn er skattlagður með u.þ.b. 40% tekjuskatti, miðskattþrepi. 
  
Í þessu dæmi er heildarskattlagning hverrar 100 krónu úthlutaðs hagnaðar því 24 krónur af þeim 80 krónum sem eftir eru eftir tekjuskatt. Eftir standa því 56 krónur af 100 krónunum eða 44% heildarskattlagning. Taka verður mið að því að starfandi hluthafar hafa áður greitt tekjuskatt af launum sínum. 
  
Í seinna dæminu er um að ræða nýsköpunarfyrirtæki í eigu sjö einstaklinga í jöfnum hlutföllum sem rekið er í formi einkahlutafélags. Hluthafar starfa allir hjá félaginu. Í þessu dæmi er heildarskattlagning hverrar 100 krónu úthlutaðs hagnaðar 16 krónur af þeim 80 krónum sem eftir eru eftir tekjuskatt. Eftir standa því 64 krónur eða 36% heildarskattlagning. Aftur verður að taka mið af því að starfandi hluthafar hafa áður greitt tekjuskatt af launum sínum. Munurinn er því 8% og af hverjum 10.000.000 krónum nemur sá munur 800.000 krónum. 
  
Eins og sjá má af þessum tveimur dæmum getur munurinn á heildarskattlagningu fyrirtækja numið verulegum fjárhæðum.

Allar nánari upplýsinga veita Teitur Björn Einarsson hdl. og Borgar Þór Einarsson hdl. í síma 415-2200.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf