Notkun vátryggingafélaga á PC crash skýrslum við ákvörðun bótaréttar eftir umferðarslys

Vátryggingafélögin hér á landi hafa í auknum mæli sl. ár stuðst við svokallaðar PC crash skýrslur við ákvörðun bótaréttar einstaklinga vegna líkamstjóns eftir umferðarslys. Þessum skýrslum er ætlað að reikna út höggkraft og hraðabreytingu sem kemur á ökutæki við árekstur. Þær eru ekki sönnunargagn um það hvort einstaklingur sem lendir í árekstri hafi orðið fyrir líkamstjóni og geta því heldur ekki staðfest að einstaklingur sem lendir í umferðarslysi hafi  ekki orðið fyrir líkamstjóni.
 
Svo virðist sem vátryggingafélög leggi hins vegar þann skilning í skýrslurnar og á grundvelli þeirra hafa vátryggingafélög hér á landi ítrekað hafnað bótaskyldu vegna líkamstjóns eftir umferðarslys. Vísa félögin þá m.a. til hraðaútreikninga sem finna má í skýrslunni og slá því föstu að tjónþoli hafi ekki getað orðið fyrir líkamstjóni við þessar tilteknu aðstæður.
 
Til þess að komast að niðurstöðu um hvort einstaklingur hafi orðið fyrir líkamstjóni eftir umferðarslys er grundvallaratriði að skoða læknisfræðileg gögn. Því hefur verið slegið föstu af dómstólum og staðfesti Fjármálaeftirlitið það með skoðun sinni í janúar 2016 á notkun PC crash skýrslna hjá vátryggingafélögum. Þá áréttaði Fjármálaeftirlitið það við vátryggingafélögin að þau hugi að upplýsingaskyldu sinni gagnvart aðilum um það hvernig staðið er að útreikningi í skýrslunum en í langflestum tilfellum afla félögin þessara skýrslna einhliða.
 
Sjá nánar um niðurstöðu fme
 
Það er því gríðarlega mikilvægt að einstaklingur sem lendir í umferðarslysi leiti til læknis finni hann fyrir einkennum eftir slysið, þrátt fyrir að högg hafi verið smávægilegt eða lítið sjáanlegt tjón sé á bifreiðunum.
 
Ef vátryggingafélag hafnar bótaskyldu í máli á grundvelli PC crash skýrslu er mikilvægt að tjónþoli leiti strax til lögmanns og láti reyna á gildi skýrslunnar.
 
OPUS lögmenn hafa langa reynslu af hagsmunagæslu í slysamálum en allar nánari upplýsingar í þessum efnum veitir Arna Pálsdóttir hdl., sviðsstjóri skaðabótasviðs OPUS lögmanna í síma 415-2200 eða í gegnum arna@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf