Meiðyrði á samfélagsmiðlum

Það er kunnara en frá þurfi að segja að samfélagsmiðlar eru orðnir einn helsti vettvangur samfélagsumræðu, skoðanaskipta og tjáningar af ýmsu tagi. Miðlar eins og Facebook, Instagram og Twitter gera fólki enda kleift að koma efni og skoðunum á framfæri með lítilli sem engri fyrirhöfn.
 
Næstum óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa er að stundum verða árekstrar, ekki síst ef gengið er of langt í grófum eða hatursfullum ummælum. Þá lýstur saman tjáningarfrelsi eins og friðhelgi einkalífs eða æruvernd annars. Telji einhver að sér vegið með slíkum hætti geta ágreiningsmál um það endað fyrir dómstólum.
 
Ýmis slík mál hafa raunar þegar ratað fyrir íslenska dómstóla. Þar hefur t.d. verið tekist á um það hvort birting efnis og ummæla á samfélagsmiðlum teljist opinber birting en slíkt getur skipt máli við mat á refsingu, skaðabótaábyrgð og fjárhæð miskabóta. Telst stöðuuppfærsla á Facebook t.d. opinber birting ef hún er aðeins aðgengileg Facebook-vinum viðkomandi?
 
Ef til vill er ekki til einhlítt svar við þessu. Til leiðbeiningar má þó sem dæmi hafa dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2014 frá 20. nóvember 2014. Þar taldi Hæstiréttur að birting myndar á Instagram teldist opinber birting og féllst ekki á málsvörn um að sú háttsemi að setja mynd á samfélagsmiðilinn hefði ekki falið í sér birtingu hennar í merkingu 2. mgr. 236. gr. hegningarlaga en sá, sem myndina birti, hafði álitið að aðeins takmarkaður fjöldi manna hefði þar aðgang að henni.
 
Þá var í öðrum dómi Hæstaréttar nr. 469/2011 frá 24. maí 2012 talið að birting ummæla á hinum gamalkunna samfélagsmiðli MySpace hefði verið opinber jafnvel þó viðkomandi hafi haldið því fram að þau hafi einungis verið ætluð fjölskyldu hennar og nánustu vinum. Hér skipti líka máli að ummælin höfðu sannarlega breiðst út til annarra og að viðkomandi hafði ekki búið svo um hnútana að tryggt væri að þau gerðu það ekki.
 
Í öllu falli er ljóst að ærumeiðandi ummæli á samfélagsmiðlum geta valdið bótaábyrgð þess sem þau setur fram rétt eins og við á um hefðbundna fjölmiðla. Við úrlausn slíkra geta fjölmörg atriði komið við sögu. Þannig skiptir máli í hvaða samhengi er ummælin eru sett fram, hvert er eðli þeirra og tilgangur og hvernig birtingu þeirra var háttað. Litið er til þess hvort ummælin eigi erindi í þjóðfélagsumræðu eða hvort um sé að ræða einkamálefni sem eiga ekki erindi til almennings og svo mætti áfram telja.
 
OPUS lögmenn veita nánari lögfræðiráðgjöf á þessu réttarsviði og búa þar að langri reynslu. Nánari upplýsingar veitir Bjarni Þór Sigurbjörnsson hdl. í síma 415-2200 eða í gegnum bjarni@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf