Að halda eftir greiðslu vegna galla á fasteign

Í fasteignakaupum kemur sú staða gjarnan upp að kaupandi, sem á eftir að greiða seljanda kaupverðið að fullu, finnur eitthvað sem hann telur vera galla á fasteigninni. Áður en komið er að lokagreiðslu og afsali stendur kaupandi þannig oft frammi fyrir því hvort hann eigi að halda eftir hluta kaupverðsins vegna hins mögulega galla. Tilgangur þess að halda eftir greiðslu er þá yfirleitt sá að reyna að tryggja þann afslátt sem kaupandinn telur sig eiga rétt á eða knýja á um úrbætur.
 
Í lögum um fasteignakaup er kveðið á um rétt kaupanda að þessu leyti. Þar segir að hafi kaupandi uppi réttmæta kröfu vegna galla þá geti hann á eigin áhættu haldið eftir svo miklum hluta kaupverðs sem nægir til að tryggja greiðslu hennar. Kaupanda getur m.ö.o. verið heimilt að halda eftir þeim hluta kaupverðsins sem svarar til tjóns hans vegna gallans, auk vaxta og kostnaðar.
 
Um þetta verður kaupandi þó eðlilega að gæta varúðar. Ef hann heldur ranglega eftir greiðslu eða ef hann heldur eftir of miklu, þá getur það skapað seljanda rétt til vanefndarúrræða gagnvart kaupanda. Þannig getur seljandi átt rétt á dráttarvöxtum vegna þeirrar fjárhæðar sem kaupandi hélt eftir umfram það sem honum var heimilt. Ef vanefnd kaupanda telst veruleg getur það svo jafnvel skapað seljanda riftunarrétt.
 
Vegna þessa er mikilvægt að kaupandi beiti haldi á greiðslu aðeins af vandvirkni og reyni umfram allt að tryggja sér sönnun um gallann, réttmæti kröfu sinnar og þá fjárhæð sem honum er heimilt að halda eftir. Það gerir kaupandi yfirleitt best með því að afla sem fyrst sannfærandi gagna máli sínu til stuðnings. Hér er einkum átt við það að afla mats sérfræðings, t.d. verkfræðings eða húsasmiðs, á orsökum hins meinta galla og kostnaði við úrbætur. Þannig leitast kaupandi við að sýna fram á tjón sitt og hve háa fjárhæð honum er heimilt að halda eftir og dregur um leið úr líkum á því að hald hans á greiðslu komi honum í koll.
 
Deilur í fasteignakaupum, svo sem varðandi galla, afslátt og hald á greiðslu, geta verið flóknar og aðstoð lögmanna oft nauðsynleg. OPUS lögmenn hafa langa reynslu af hagsmunagæslu í slíkum málum bæði fyrir kaupendur og seljendur. Nánari upplýsingar í þeim efnum veita Erlendur Þór Gunnarsson hrl. og Bjarni Þór Sigurbjörnsson hdl. í síma 415-2200 eða í gegnum erlendur@opus.is og bjarni@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf