Sjúkrakostnaður og tekjutap

Þegar maður lendir í slysi þarf að huga að ýmsu varðandi bótarétt hans. Óhætt er að segja að orðatiltækið "því fyrr því betra" eigi vel við þegar kemur að bótaliðum eins og sjúkrakostnaði og tekjutapi en þeir falla almennt til fljótlega eftir slys.

Slysum fylgja oft útgjöld vegna sjúkrakostnaðar. Tjónþoli sem þarf að leita til lækna og/eða annarra meðferðferðaraðila, s.s. sjúkraþjálfara, vegna slyss þarf almennt að greiða töluverðar fjárhæðir í sjúkrakostnað.

Þegar slys á sér stað er mikilvægt að kynna sér bótarétt sinn strax í upphafi. Bótaréttur fer eftir tegund slyss og þeirri tryggingu sem að baki er. Algengustu slysin eru umferðarslys, vinnuslys og frítímaslys. Í sumum tilfellum er sjúkrakostnaður endurgreiddur að fullu á meðan greiðsla sjúkrakostnaðar er takmörkuð í öðrum tilfellum. Þetta kannar lögmaður þinn strax í upphafi.

Sjúkrakostnaður getur verið fljótur að safnast upp og orðið tjónþola þungbær þegar tjónþoli þarf að leita til lækna eða annarra meðferðaraðila strax í kjölfar slyss. Til þess að geta farið fram á endurgreiðslu sjúkrakostnaðar þarf að liggja fyrir áverkavottorð og tilkynning um slys til viðkomandi vátryggingafélags eða stofnunar. Ef lögmaður er með umboð í máli kallar hann eftir áverkavottorði og sendir inn tilkynningu ef hún liggur ekki þegar fyrir. Það getur tekið nokkurn tíma að fá læknisfræðileg gögn afhent og því best að hefja ferlið sem fyrst því sjúkrakostnaður er ávallt endurgreiddur til tjónþola og endurgreiðsla á sér ekki stað fyrr en þessi gögn liggja fyrir.

Í sumum tilvikum þarf tjónþoli að vera frá vinnu vegna slyss. Þá þarf að skoða rétt hans til greiðslu þess tekjutaps sem hann verður fyrir. Þar sem tekjutap er almennt mest strax eftir slys er mikilvægt að kanna rétt sinn sem fyrst. Kalla þarf m.a. eftir áverkavottorði og skila inn tilkynningum til viðkomandi vátryggingafélags þegar gerð er krafa um greiðslu tekjutaps.

Það er mikill munur á rétti tjónþola til greiðslu tekjutaps eftir tegund slyss. Ef um umferðarslys er að ræða á tjónþoli almennt rétt á að fá tekjutap sitt bætt eftir slys. Hins vegar er réttur til greiðslu tekjutaps mun takmarkaðri þegar kemur að frítímaslysum. Hvað varðar vinnuslys þarf m.a. að skoða kjarasamning viðkomandi og rétt hans til launagreiðslna frá vinnuveitanda sínum. Þetta skoðar lögmaður þinn strax í upphafi.

Nánari upplýsingar veitir Arna Pálsdóttir hdl., sviðsstjóri skaðabótasviðs OPUS lögmanna, í síma 415-2200 eða á [email protected].

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf