Ábyrgðir á námslánum LÍN – framkvæmd greiðslumats

Mál er varða ábyrgðir á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) hafa verið nokkuð í deiglunni að undanförnu. Eitt af því sem þar kemur við sögu er skylda LÍN til að greiðslumeta lántakanda áður en ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð fyrir námsláni og afleiðingar þess þegar því er ekki fylgt sem skyldi.
 
Með lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, sem tóku gildi 4. apríl 2009, voru reglur um þetta hertar og sú skylda lögð á lánveitendur að greiðslumeta lántakanda, kynna ábyrgðarmanni niðurstöður greiðslumats og ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumatið bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar.
 
Af lögunum leiðir að það er heldur alls ekki sama  hvernig greiðslumat er framkvæmt. Greiðslumatið verður að byggjast á viðurkenndum viðmiðum og fela í sér raunverulegt mat á greiðslugetu lántakandans. Ef greiðslumatið stenst ekki slík skilyrði getur verið að ábyrgðin sé andstæð lögum og ógildandleg.

Í ljós hefur komið að framkvæmd greiðslumats hjá LÍN var í langan tíma með þeim hætti að eingöngu var könnuð staða lántakanda í vanskilaskrá en ekkert raunverulegt mat gert á tekjum, útgjöldum eða greiðslugetu lántakandans. Þessi framkvæmd gæti í mörgum tilfellum hafa verið andstæð lögum, þ.e. þegar um er að ræða ábyrgðir sem stofnað var til eftir 4. apríl 2009 þegar ábyrgðarmannalögin tóku gildi. Slíkar ábyrgðir gætu því verið ógildanlegar.
 
Ábyrgðarmönnum á námslánum hjá LÍN getur auðsjáanlega verið hagur í því að kanna réttarstöðu sína að þessu leyti og láta reyna á hvort rétt hafi verið staðið að greiðslumati. Sama gildir að sjálfsögðu einnig um ábyrgðarmenn hjá öðrum lánastofnunum og bönkum.
 
OPUS lögmenn hafa langa reynslu af hagsmunagæslu fyrir ábyrgðarmenn en allar nánari upplýsingar í þessum efnum veitir Bjarni Þór Sigurbjörnsson hdl. í síma 415-2200 eða í gegnum bjarni@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu. Ábyrgðarmaður er Erlendur Þór Gunnarsson hrl.

Aftur í fréttabréf