Málflutningur fyrir EFTA-dómstólnum

Á síðustu misserum hefur það færst í vöxt að íslenskir dómstólar leiti til EFTA-dómstólsins í Lúxemborg þegar reynir á ákvæði EES-samningsins í ágreiningi fyrir dómstólum. OPUS lögmenn hafa á síðustu mánuðum flutt tvö umfangsmikil mál fyrir EFTA-dómstólnum eftir að Hæstiréttur nýtti sér heimild til að leita eftir áliti dómstólsins.

Annars vegar var um að ræða mál Aresbank S.A. á hendur Landsbankanum hf., FME og íslenska ríkinu, þar sem reyndi á túlkun á hugtakinu innstæða samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins. Fluttu málið fyrir hönd Landsbankans þeir Borgar Þór Einarsson, hdl. og Grímur Sigurðarson, hrl. en auk þess komu þeir Teitur Björn Einarsson, hdl., og Konráð Jónsson, hdl., að undirbúningi málsins. Niðurstaða EFTA-dómstólsins var á þann veg að skilgreiningin væri í raun tvíþætt, annars vegar svonefnd virk skilgreining og hins vegar tæknileg skilgreining. Var Landsbankinn að lokum sýknaður í Hæstarétti fyrr á þessu ári af öllum kröfum Aresbank að fjárhæð um 6 milljarða króna.

Í hinu málinu var um að ræða einstakling sem höfðað hafði skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu og reyndi í því máli á túlkun Evrópuréttar um frjálsa för innan evrópska efnahagssvæðisins. Flutti málið Oddgeir Einarsson, hrl., en að undirbúningi komu þeir Konráð Jónsson, hdl. og Flosi Hrafn Sigurðsson, hdl.

Reynsla af málflutningi fyrir EFTA-dómstólnum er að mati OPUS lögmanna mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem stofan veitir viðskiptavinum, jafnt lögaðilum sem einstaklingum.

 

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf