Aukið vægi Evróputilskipana við meðferð sakamála

Tilkoma innri markaðar Evrópusambandsins hefur leitt til stóraukinnar samvinnu milli einstaklinga og lögaðila í hinum mörgu og stundum ólíku lögsögum Evrópu. Þar að auki hefur Schengen-svæðið opnað landamæri milli flestra þessara lögsaga. Ennfremur hefur aukin tækni og tilkoma veraldarvefsins ýtt undir alþjóðleg samskipti. Þetta þýðir að fólk, fjármagn og fyrirtæki hefur getað flust á milli landa, nánast án hindrana. Þróunin hefur ýtt undir viðskipti sem fólk og fyrirtæki hefur séð hag sinn í. Hinsvegar hefur hið aukna frelsi því miður einnig leitt til þess að skipulögð glæpasamtök eiga auðveldara með að eiga í samstarfi sem nær á milli tveggja eða fleiri ríkja. Hér er oft um að ræða alvarlega glæpi eins og mansal, fíkniefnaviðskipti, peningaþvætti o.s.frv.

Evrópusambandið telur að alþjóðavæðing glæpahringja kalli á alþjóðasamstarf aðildarríkja á sviði sakamála og sakamálaréttarfars. Hefur sambandið því á undanförnum árum unnið að samræmingu á lögum aðildarríkja á þessum sviðum. Lissabon sáttmálinn tók gildi 1. desember 2009 og með honum fékk Evrópusambandið mun meira vald á sviði sakamála og sakamálaréttarfars. Evrópuráðið og þingið getur nú gefið út tilskipanir um réttindi sakborninga í sakamálum sem hafa bein réttaráhrif í aðildarlöndunum, öfugt við það sem áður var. Þetta þýðir til dæmis að sakborningar geta nú, við meðferð sakamáls í aðildarríki, óskað eftir úrlausn Evrópudómstólsins um hvort aðildarríki hefur brotið á tilskipun Evrópusambandsins um réttindi sakborninga í sakamálum.

Þó tilskipanir Evrópusambandsins á sviði sakamála og sakamálaréttarfars hafi ekki bein áhrif á Íslandi er líklegt að þróunin muni hafa töluverð áhrif hér á landi með óbeinum hætti, annað hvort í gegnum dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins eða löggjafarvaldið.

Allar nánari upplýsingar veitir Grímur Sigurðarson, hrl. (grimur@opus.is).

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf