Vextir ólögmætra gengislána

Eftir dóm Hæstaréttar þann 15. febrúar sl., þar sem reyndi á útreikning og uppgjör vaxta aftur í tímann af íslensku láni sem bundið hafði verið við gengi erlendra gjaldmiðla, hefur verið nokkuð deilt um hvaða þýðingu þessi dómur hefur.

Í áliti sem OPUS lögmenn hafa tekið saman kemur fram að hafi skuldari greitt afborgun höfuðstóls og vaxta í góðri trú og fengið í hendur kvittun fyrir greiðslunni frá kröfuhafa, þá sé ekki hægt að krefja skuldarann aftur í tímann um viðbótargreiðslu á mismuninum milli gengistryggðu vaxtakjaranna og óverðtryggðra vaxta Seðlabankans. Af þessu leiðir jafnframt að mati OPUS lögmanna að skuldarinn eigi rétt á endurgreiðslu hafi hann innt slíka afturvirka greiðslu af hendi við skilmálabreytingu.

OPUS lögmenn telja að dómurinn hafi fordæmisgildi fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki sem uppfylla þau skilyrði sem að ofan greinir. Þá kemur sérstaklega til skoðunnar hvort við endurútreikning einstakra lána hafi verið tekið tillit til höfuðstólsgreiðslna en það er eitt af þeim atriðum sem OPUS lögmenn hafa skoðað sérstaklega fyrir sína viðskiptavini.

Mikilvægt er að þeir sem tóku lán sem bundin voru gengi erlendra gjaldmiðla láti kanna réttarstöðu sína.

Allar nánari upplýsingar veitir Borgar Þór Einarsson hdl. í síma 415 2200 eða á borgar@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf