Staða ábyrgðarmanna gagnvart fjármálafyrirtækjum

Allt frá bankahruninu haustið 2008 til dagsins í dag hefur fjöldi fólks leitað til OPUS lögmanna til að fá úr því skorið hver lagaleg staða þeirra er gagnvart þeim kröfum sem fjármálastofnanir beina að þeim. Óhætt er að slá því föstu að í mörgum tilvikum hefur ekki reynst lagastoð fyrir kröfum fjármálafyrirtækjanna og hefur það komið starfsmönnum OPUS lögmanna á óvart hversu algengt það er að fjármálafyrirtæki hafi brotið þær skyldur sem á þeim hvíla lögum og reglum samkvæmt. Má hér nefna ítrekuð brot á samkomulagi sem fjármálafyrirtækin stóðu að ásamt Neytendasamtökunum og stjórnvöldum um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Ábyrgðarmenn hafa skýran rétt að lögum og á grundvelli ofangreinds samkomulags. Hér er um að ræða þætti eins og skyldu fjármálafyrirtækis til að greiðslumeta skuldara ávallt þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur tiltekinni fjárhæð, afhendingu upplýsingabæklings til ábyrgðarmanna við undirritun ábyrgðar þar sem fjallað er um þær skyldur sem í ábyrgð felast, ráðleggingar fjármálafyrirtækis til ábyrgðarmanns ef greiðslumat lántakanda bendir ekki til þess að hann geti efnt skuldbindingar sínar, tilkynningar um vanskil á kröfu til ábyrgðarmanns um leið og vanskil verða o.s.frv.

Í þeim dómsmálum sem OPUS lögmenn hafa komið að hefur niðurstaðan verið sú að mikill misbrestur hefur verið á því að fjármálafyrirtæki hafi sinnt ofangreindum skyldum sínum en lagt þeim mun meiri þunga í tilraunir sínar til að ganga að eignum ábyrgðarmanna, með þungbærum afleiðingum fyrir viðkomandi. Þar sem OPUS lögmenn hafa tekið til varna fyrir umbjóðendur sína í þessum málum hefur niðurstaðan ætíð orðið sú að viðkomandi fjármálastofnun hafi brotið gegn lagaskyldu sinni eða ofangreindu samkomulagi. Leiðir slík niðurstaða að jafnaði til sýknu af kröfum þeirra.

Umrætt samkomulag tók aðeins til ábyrgða sem einstaklingar gengust í fyrir aðra einstaklinga. Falla ábyrgðir fyrir félög og fyrirtæki því jafnan þar fyrir utan. Rétt er að taka fram að hin nýju lög um ábyrgðarmenn undanskilja ekki ábyrgðir sem gengið er í fyrir félög. Þrátt fyrir þetta er full ástæða fyrir ábyrgðarmenn að kanna rétt sinn nánar vegna ábyrgða á skuldum félaga. Í nýföllnum dómi í héraðsdómi Reykjaness, nr. E-913/2011 voru tveir ábyrgðarmenn sýknaðir af kröfu Landsbankans vegna sjálfskuldarábyrgðar sem þeir höfðu gengið í fyrir einkahlutafélag. Dómurinn taldi sýnt að bankinn hefði við frágang skjals um sjálfskuldarábyrgðina skuldbundið sig til þess að fylgja samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga en ekki gert það. Að mati dómsins tók bankinn á sig auknar skyldur gagnvart stefndu. Var litið til þess að bankinn sem fjármálafyrirtæki hafði útbúið þá skilmála sem ritað var undir og beri hallann af því að ekki hefði verið notað rétt eyðublað, hafi ætlun hans ekki staðið til að taka á sig umræddar skyldur.

Í ljósi framangreinds er afar mikilvægt að hver og einn sem gengist hefur í skuldaábyrgð, einfalda ábyrgð eða gefið leyfi til veðsetningar fasteignar sinnar til tryggingar á skuldum annars einstaklings, kanni til hlítar sína stöðu, fái ráðleggingar um þær skyldur sem hvíla á fjármálafyrirtækjum þessu tengt og fái endanlega úr því skorið hver sé hin raunverulega ábyrgð sem viðkomandi hefur gengist undir.

Allar nánari upplýsingar veitir Erlendur Þór Gunnarsson hrl. í síma 415 2200 eða á erlendur@opus.is.

Fyrirvari: Þær upplýsingar sem fram koma í fréttabréfi þessu eru ekki lögfræðileg ráðgjöf. OPUS lögmenn bera ekki ábyrgð á tjóni sem hljótast kann vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli upplýsinga sem hér koma fram. Er lesendum bent á að leita sér ráðgjafar hjá OPUS lögmönnum áður en ákvarðanir eru teknar á grundvelli upplýsinga sem finna má í fréttabréfinu.

Aftur í fréttabréf